Francois Fillon hyggst ekki draga sig út úr baráttunni um forsetaembættið í Frakklandi. Fillon sem heldur í dag fréttamannafund hyggst þar ætla að berjast gegn ásökunum um að hann hefði sett fjölskyldumeðlimi sína á launaskrá án þess að þeir hefðu þurft að gera nokkra vinnu.

Kallaði hann á fylgismenn sína að halda áfram að styðja við sig í skilaboðum á facebook og lofaði hann því þar að halda áfram sínu striki.

Tímaritið Le Monde kallaði viðbrögð hans björgunaráætlun en hann bað þingflokk Lýðveldisflokksins tveggja vikna frest til að snúa stöðunni við, en ef það gengur ekki mun flokkurinn hafa skamman tíma til að finna nýjan frambjóðanda ef hann neyðist til að draga framboðið til baka.

Fyrsta umferð forsetakosninganna verða 23. apríl næstkomandi en þeir verða að skrá sig í framboð fyrir miðjan marsmánuð.

Síðan fréttir birtust um það 24. janúar síðastliðinn að konan hans hefði starfað sem aðstoðarmaður hans á þinginu án þess að hafa sýnt fram á mikla viðveru í þinginu hefur fylgi hans hrunið í könnunum. Saksóknarar hafa hafið rannsókn á málinu sem og því að börnin hans hafa verið ráðin í svipuð störf.

Hafa kannanir Ifop og Elabe sýnt að hann er nú kominn í þriðja sæti á eftir Marine Le Pen frá frönsku þjóðfylkingunni og Emmanual Macron sem er sjálfstæður frambjóðandi.

Kannanirnar sýna jafnframt að Macron myndi sigra Le Pen í baráttunni milli þeirra tveggja efstu í framhaldskosningu, en eins og staðan er núna er Le Pen með 25% fylgi, Macron með 20,5% og Fillon með 18,5 samkvæmt nýjustu könnun Ifop.