Í aðdraganda komandi forsetakosninga í Frakklandi sem haldin verða 23. apríl komandi stefnir í að Francois Fillon og Marine Le Pen beri sigurorð af öðrum frambjóðendum, samkvæmt frétt Bloomberg.

Fillon sem var forsætisráðherra í tíð Nicolas Sarkozy vann forkosningar Repúblikanaflokksins fengi samkvæmt könnunum milli 26 og 29% atkvæða en Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar fengi milli 24 og 25% atkvæða.

Það þýðir að þau tvö myndu keppa um forsetatitilinn í seinni umferð kosninganna sem haldin eru 7. maí ef enginn frambjóðandi fengi meira en 50% í fyrri umferð.

Óvinsælasti forseti síðustu 50 ára

Sósíalistaflokkur Hollande forseta hefur enn ekki útnefnt forsetaefni sitt, en forsetinn sjálfur hyggst ekki bjóða sig fram á ný, enda er hann óvinsælasti forseti landsins í hálfa öld.

Þeir sem boðað hafa þátttöku í forvali flokksins eru meðal annarra fyrrum forsætisráðherra landsins Manuel Valls, og fyrrum menntamálaráðherrann Vincent Peillon ásamt fyrrum iðnaðarráðherranum Arnoud Montebourg. Fjórir aðrir keppa um útnefninguna sem ákveðin verður í tveim kosningum 22. og 29. janúar.

Kommúnistar í 5. sætið á undan sósíalista

Samkvæmt könnun Sopra Steria myndi Emmanual Macron, fyrrum efnahagsmálaráðherra í stjórn Hollande sem hyggst bjóða sig fram sjálfstætt, hljóta þriðja sætið með 15% atkvæða.

Fjórða sætið myndi falla Jean-Luc Melenchon í skaut, en hann nýtur stuðning kommúnista. Loks myndi Valls hljóta 5. sætið með 12% samkvæmt sömu könnun.