*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 28. nóvember 2016 08:29

Fillon sigrar forkosningar

Francois Fillon, fyrrum forsætisráðherra Frakka, verður forsetaframbjóðandi Lýðveldisflokksins og etur því kappi við Marine Le Pen.

Ritstjórn
Francois Fillon er frambjóðandi Lýðveldisflokksins.
epa

Francois Fillon sigraði í gær forkosningar Lýðveldisflokksins fyrir forsetakosningar sem verða haldnar á næsta ári með nokkrum yfirburðum. Fillon sigraði meðal annars Alain Juppe. Í forsetakosningunum mun hans helsti keppinautur að öllum líkindum vera Marine Le Pen frambjóðendi National Front.

Fillon, sem meðal annars hefur setið sem forsætisráðherra Frakka, hlaut um 66,6% atkvæða en Alain Juppé, sem einnig hefur setið í stól forsætisráðherra, hlaut einungis 33,4% atkvæða. Í fyrstu umferð atkvæðagreiðslunnar, tapaði fyrrum forsetinn Nicolas Sarkozy fyrir Juppe og Fillon.

Talið er að sigur Fillon sé leið Lýðveldisflokksins til þess að eiga betri möguleika á sigri gegn Marine Le Pen og flokk hennar National Front. Fillon hefur verið talinn sá frambjóðandi sem hallaðist hvað lengst til hægri af frambjóðendum Lýðveldisflokksins í forkosningunum.

Francois Fillon er til að mynda íhaldsamur kaþólikki, sem byggir hugmyndafræði sína á kennisetningum hins frjálsa markaðar og hefur til að mynda talað fyrir því að endurvekja samskipti við Rússland undir Vladimír Pútín.

Fillon hefur talað fyrir endurbótum í anda Margaret Thatcher, til að mynda vill hann binda endi á 35 stunda vinnuviku. Hann vill jafnframt lækka skatta og hækka eftirlaunaaldurinn upp í 65 ár.