Fyrrum forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, hefur játað sig sigraðan í forkosningum Lýðveldisflokksins fyrir forsetakosningar í Frakklandi. Francois Fillon fyrrum forsætisráðherra Frakklands er talinn gífurlega sigurstranglegur í forkosningunum á hægri vængnum. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Alain Juppe, sem er einnig fyrrum forsætisráðherra Frakka endaði í öðru sæti í forkosningunum. Sigurvegari forkosninganna kemur líklega til með að etja kappi við Marine Le Pen, sem er frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar sem hallar sér enn lengra til hægri. En úrslitin ráðast endanlega næstkomandi laugardag.

Stjórn Francois Hollande, sem er formaður Sósíalistaflokksins, er svo óvinsæl að stjórnmálaskýrendur í Frakklandi telja það ólíklegt að Sósíalistaflokkurinn eigi raunhæfan möguleika á því að hljóta nokkurs brautargengis.

Nicolas Sarkozy hefur lýst yfir að hann hyggist hætta þátttöku í stjórnmálum. „Ég er ekki bitur og ég er ekki leiður, en ég óska þess besta fyrir landið mitt,“ er haft eftir Sarkozy í frétt BBC.

Innblásinn af Thatcher

Francois Fillon er íhaldsamur kaþólikki, sem byggir á kennisetningum hins frjálsa markaðar og hefur til að mynda talað fyrir því að endurvekja samskipti við Rússland undir Vladimír Pútín. Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Fillon hefur talað fyrir endurbótum í anda Margaret Thatcher, til að mynda vill hann binda endi á 35 stunda vinnuviku. Hann vill jafnframt lækka skatta og hækka eftirlaunaaldurinn upp í 65 ár.