*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 15. apríl 2020 18:43

Fimm af sjö falla frá bótakröfu

Fimm útgerðir hafa fallið frá bótakröfu á hendur ríkinu vegna úthlutunar aflahlutdeildar í markíl.

Jóhann Óli Eiðsson

Fimm útgerðir, af þeim sjö sem stefnt hafa íslenska ríkinu til skaðabóta vegna úthlutunar á aflaheimildum í makríl árin 2011-18, hafa fallið frá málssókn sinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þeim.

Útgerðirnar sem um ræðir eru Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes. Huginn og Vinnslustöðin standa ekki að yfirlýsingunni. 

„Svo sem fram hefur komið munu áhrif heimsfaraldurs kórórunuveirunnar hafa víðtæk áhrif á ríkissjóð og allt íslenskt samfélag. Fyrir endann á því verður ekki enn séð, því miður. Það er hins vegar á svona stundum sem styrkleikar íslensks samfélags koma vel í ljós. Víðtæk samstaða og baráttuhugur  hafa einkennt samfélagið síðustu vikur og mánuði. Nú verða allir að leggja lóð á vogarskálarnar,“ segir í yfirlýsingunni. 

Samanlögð bótakrafanna útgerðanna sjö hljóðaði upp á 10,2 milljarða króna auk skaðabótavaxta frá setningardegi hverrar úthlutunarreglugerðar fyrir sig. Þá var krafist dráttarvaxta er mánuður var liðinn frá þingfestingu málanna. Samanlagt stóð krafa félaganna í um þrettán milljörðum króna að teknu tilliti til vaxta. 

Eftir standa Huginn og Vinnslustöðin en kröfur þeirra tveggja nema samanlagt tæpum tveimur milljörðum króna. 

Stikkorð: Makríll Makríll Makríll