Í dag eru liðin fimm ár frá því að Dow Jones hlutabréfavísitalan náði sínu hæsta gildi áður en hún hóf hratt lækkunarferli vegna fjármálakrísunnar. Við upphaf viðskipta þann 9. október 2007 stóð gildi vísitölunnar í 14.093 stigum. Eftir miklar sveiflur er gildi vísitölunnar í dag, nákvæmlega fimm árum síðar, um 13.500 stig.

Á viðskiptasíðu Yahoo í dag er skoðanakönnun þar sem spurt er hvenær lesendur telja að vísitalan nái aftur fyrri hæðum. Af þeim sem hafa svarað telja flestir, eða 40% svarenda, að það verði eftir árið 2013.

Dow Jones vísitalan mælir markaðsvirði 30 stórra bandarískra fyrirtækja, meðal annars Microsoft, Alcoa, ExxonMobil, McDonald's og Wal-Mart.

Lægst fór vísitalan í mars 2009. Þá stóð hún í um 6.627 stigum og höfðu því fyrirtæki innan vísitölunnar tapað meira en helmingi markaðsvirðis í samanburði við 8. október 2007. Með sveiflum hefur vísitalan farið hækkandi og stendur í dag í um 13.500 stigum.