Alcoa lýsti yfir í bréfi til Valgerðar Sverrisdóttur, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, 17. maí 2005, áhuga á að kannaðir yrðu möguleikar á byggingu og rekstri álvers á Norðurlandi.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn mun Alcoa brátt draga sig úr því ferli sem staðið hefur í rúm fimm ár er snýr að uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

Sem fyrr segir hefur ferlið staðið lengi og segja má að það hafi formlega hafist í maí 2005 eins og áður segir. Í mars árið 2006 var skrifað undir samkomulag um ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa nýtt 250 þúsund tonna álver í landi Bakka við Húsavík. Sama dag voru fánar dregnir að húni en um leið mótmæltu álversandstæðingar við skrifstofur Alcoa í Reykjavík. Þá var gert ráð fyrir því að framkvæmdir við nýtt álver gætu hafist árið 2010.

Í maí 2006 var undirrituð sameiginleg viljayfirlýsing þáverandi ríkisstjórnar, Húsavíkurbæjar og Alcoa um undirbúning að byggingu álversins en rannsóknum átt að ljúka um mitt ár 2008. Gert var ráð fyrir að orkuþörf álversins yrði um 3500 gígavattstundir á ári eða um 400 megavött. Í kjölfarið fór fram mikil undirbúningsvinna, m.a. við vinnslu á umhverfismati, rannsóknum og fleira.

Viljayfirlýsingin var endurnýjuð reglulega þangað til Katrín Júlíusdóttir, núverandi iðnaðarráðherra, ákvað að endurnýja hana ekki í september 2009. Katrín útilokaði þá ekki álver á Bakka en greindi á við forsvarsmenn Alcoa um stærð mögulegs álvers. Ferlið hefur því tekið tæp fimm ár en mun sem fyrr segir ljúka innan skamms af hálfu Alcoa.