Aðalvísitala Kauphallarinnar í Osló (OBX) hækkaði um 11,5% á árinu sem var að líða borið saman við 32,4% hækkun árið 2006. Samkvæmt því sem segir í Hálffimm fréttum Kaupþings er þetta fimmta árið í röð sem hækkun verður á norskum hlutabréfamarkaði en af norrænu hlutabréfavísitölunum hækkaði aðeins sú finnska meira en sú norska í fyrra. Frá ársbyrjun 2003 til ársloka 2007 hækkaði OBX-vísitalan um 326% en á sama tímabili hækkaði Úrvalsvísitalan íslenska um 367 prósent.

Ýmis met féllu í Noregi á árinu 2007 og  má þar nefna að heildarvelta hefur aldrei verið meiri og jókst um fjórðung á milli ára. Þá var einnig metfjöldi viðskipta, eða um 48.500 að meðaltali á dag sem var 37% aukning á milli ára. Alls voru 57 fyrirtæki skráð í kauphöllina, einu meira en árið 1997.

Þrefaldaðist annað árið í röð

Kauphöllin í Osló hefur oft verið kölluð „olíukauphöllin“" – og ekki af ástæðulausu enda er vægi olíugeirans mikið. Þótt olíuverð hafi hækkað um 60% á árinu mátti ekki sjá sömu fylgni í hækkun fyrirtækja í olíugeiranum.

Langstærsta fyrirtækið í kauphöllinni, StatoilHydro, hækkaði þannig aðeins um 2% á síðasta ári. Hástökkvari ársins var skipafélagið Golden Ocean Group sem hækkaði um 246% eftir að hafa einnig þrefaldast árið áður, en John Fredriksen auðugasti maður Noregs, er stærsti hluthafinn í félaginu. Renewable Energy Corporation (REC), orkufyrirtæki í endurnýjanlegum orkugjöfum, flaug upp um 140% á ári grænna fyrirtækja og setti þar með mark sitt á hlutabréfaverð í Orkla fyrirtækjasamsteypunni sem á 40% í félaginu. Frontline, Norsk Hydro, Seadrill, Telenor og síðast en ekki síst Yara, sem hækkaði um 80%, áttu góðu gengi að fagna á síðasta ári.

Hins vegar varð tap á rekstri Norske Skog á síðasta ári og féll félagið mest af stórfyrirtækjunum eða um 55,6%. Árið var ennfremur almennt slakt hjá fiskeldis- og útgerðarfélögum. Af einstökum félögum lækkaði Repant mest (78%) segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.