Þrátt fyrir að hafa hikstað nokkrum sinnum á árinu var þróun bandaríska hlutabréfamarkaðarins fjárfestum um margt hagfelld. Á vefsíðu Wall Street Journal var farið yfir hlutabréf þeirra fimm fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni sem hækkuðu mest á árinu.

1. Southwest Airlines Co. - 123% hækkun á árinu

Fluggeirinn hagnaðist mjög á lækkun olíuverðs, en hlutabréf Southwest voru á hraðri uppleið áður en olíuverð fór að lækka í sumar. Í mars sló gengi bréfa félagsins ný met og hefur hækkað um um 80% síðan þá.

2. Electronic Arts Inc. - 106% hækkun á árinu

Hækkun gengis hlutabréfa EA hefur verið stöðug yfir árið og hefur gengið ekki verið sterkara í sex ár.

3. Edwards Lifesciences Corp. - 96% hækkun á árinu

Lækningatækjaframleiðandinn Edward Lifesciences hefur skilað betri afkomu en sérfræðingar hafa gert ráð fyrir og endurspeglast það í gengi bréfa félagsins.

4. Allergan Inc. - 92% hækkun á árinu

Allergan, sem framleiðir m.a. Botox, stóð í ströngu á árinu. Stjórnendur komu í veg fyrir fjandsamlega yfirtöku Valeant Pharmaceuticals International fyrr á árinu, en síðar var skrifað undir kaup Actavis á fyrirtækinu. Mun hann ganga í gegn á þessu ári.

5. Avago Technologies Ltd. - 80% hækkun á árinu

Hálfleiðaraframleiðandinn Avago á velgengni sína á árinu m.a. því að þakka að fyrirtækið framleiðir örflögur í nýjustu tegundir snjallsíma og hefur eftirspurn eftir nýjasta iPhone síma Apple verið mikil.