„Þetta eru hefðir í erlendum þingum sem við höfum ekki tekið upp hér,“ segir Jörundur Kristjánsson, alþjóðaritari á skrifstofu Alþingis, um heimsókn fimm breskra þingmanna hingað til lands. Þeir komu í gær og funduðu með sendiherra Bretlands á Íslandi. Þeir hófu svo daginn í dag á fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og hittu Einar K. Guðfinnsson, forseta Alþingis, í Alþingishúsinu. Þá funda þeir með utanríkismálanefnd. Nú í hádeginu snæða þeir svo með Má Guðmundssyni seðlabankastjóra. Í eftirmiðdaginn munu þingmennirnir bresku skoða íslensku handritin. Þingmennirnir hverfa af landi brott á miðvikudag.

Jörundur vísar til þess að á meginlandi Evrópu sé hefð fyrir því að þingmenn velji sér lönd sem þeir hafa áhuga á og sinna þá samskiptum við þau á meðan þingsetu stendur.

Fundaði með Geir Haarde árið 2008

Þingmennirnir eru fjórir frá Verkamannaflokknum og einn úr Íhaldsflokknum. Þeir fjórir fyrrnefndu eru Fabian Hamilton, Ian Davidson, Paul Farrelly og Lyndon Harrison, lávarður úr efri deild breska þingsins. Úr röðum Íhaldsflokksins kom þingmaðurinn James Gray. Hamilton er sá eini fimmmenninganna sem hefur komið hingað áður. Það var síðla árs 2008 en þá fundaði hann með Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra.

Tilgangur ferðarinnar er að funda með ráðamönnum og fá gleggri sýn hér í ýmis málum og efla og styrkja tengslin á milli þinga og landa auk þess að viðhalda tengslum þinganna og vera milligöngumenn í málum Íslands og Bretlands.