*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 19. september 2017 08:53

Fimm flokka bandalagið með meirihluta

Átta flokkar munu sitja á Alþingi eftir kosningar samkvæmt nýrri skoðanakönnun. VG, Píratar, Samfylking og Björt framtíð hefðu eins manns meirihluta.

Ritstjórn
Fyrir síðustu kosningar reyndu forystumenn Bjartrar framtíðar, Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingar auk Viðreisnar að koma sér saman um áherslur fimm flokka kosningabandalags.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt nýrri könnun kæmust átta flokkar inn á Alþingi ef kosið yrði í dag, því til viðbótar við þá sjö flokka sem nú eru á Alþingi kæmist einnig Flokkur fólksins á þing.

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn eru stærstir en svipað stórir samkvæmt könnuninni, og er hún að því leitinu til samhljóða könnun sem Viðskiptablaðið sagði frá í gær.

Niðurstaða könnunar Fréttablaðsins, stöðvar 2 og Vísis sem gerð var í gær er hins vegar sem hér segir:

  • Sjálfstæðisflokkur - 23,0% og færu úr 21 í 15 þingmenn
  • Vinstri grænir - 22,8% og færu úr 10 í 15 þingmenn
  • Píratar - 13,7% og færu úr 10 í 9 þingmenn
  • Flokkur fólksins - 10,9% og færu úr engum í 7 þingmenn
  • Framsóknarflokkurinn - 10,4% og færi úr 8 í 7 þingmenn
  • Björt framtíð - 7,1% og héldi sínum 4 þingmönnum
  • Viðreisn - 5,2% og færi úr 7 í 3 þingmenn
  • Samfylkingin - 5,1% og héldi sínum 3 þingmönnum
  • Aðrir flokkar 1,8% og engir þingmenn

Ef þetta yrði niðurstaða kosninganna þýðir það að núverandi stjórn héldi ekki meirihluta sínum enda einungis með 22 þingmenn, og tapaði 10 þingmönnum, þar af myndu flokkarnir sem slitu stjórnarsamstarfinu, Björt framtíð og Viðreisn tapa fjórum.

Kosningabandalagið sem reynt var að mynda fyrir síðustu kosningar myndi hins vegar merja meirihluta, en samanlagt hafa VG, Píratar, Björt framtíð, Viðreisn og Samfylkingin 34 þingmenn, eða fimm þingmanna meirihluta, en með fimm flokka á bak við sig.

Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Flokkur fólksins yrðu í minnihluta með 29 þingmenn, en strangt til getið gætu fjórir af hinum fimm flokkunum, sem hittust í Lækjarbrekku fyrir síðustu kosningar, myndað meirihluta með því að sleppa annað hvort Samfylkingu eða Viðreisn, en sá meirihluti yrði jafn tæpur og núverandi stjórn var með, eða eins þingmanns meirihluta.