Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata mun mæta á Bessastaði til fundar við Guðna Th. Jóhannesson til að skila stjórnarmyndunarumboðinu klukkan fimm núna síðdegis.

Slitnaði nú fyrir skömmu upp úr því sem kallaðar voru óformlegar viðræður stjórnmálaflokkanna fimm sem Vinstri grænir reyndu áður að mynda stjórn með þegar Katrín Jakobsdóttir var með stjórnarmyndunarumboðið.

Klukkan 12 á hádegi átti fundur formanna flokkanna fimm, það er Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar að hefjast en honum var frestað um klukkustund að beiðni Katrínar vegna þess að fundur VG hafði dregist á langinn.