Sátt hefur náðst á milli fimm þingflokka sem eiga sæti á Alþingi — af þeim sjö sem þar sitja — um hvernig ljúka skuli þingstörfum. Frá þessu er greint í frétt RÚV , en Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, las upp yfirlýsingu að loknum fundi formanna og þingflokksformanna sem hefur staðið yfir í dag. Forseti Alþingis tók fram að þrátt fyrir að hinir tveir flokkarnir hafi ekki skrifað undir samkomulagið settu þeir sig ekki upp á móti því. Ekki var upplýst um hvaða tveir flokkar það væru.

Forseti Alþingis sagði að gert væri ráð fyrir að þing yrði kallað saman á morgun. Meðal annars verður fjallað um breytingar á lögum um uppreist æru og breytingar á útlendingalöggjöfinni. Enn fremur verður kosið í endurupptökunefnd og lýðveldisnefnd og breytingar verði gerðar á kosningalöggjöfinni svo að fólk sem býr erlendis geti kært sig inn á kjörskrá. Þá gerir forseti Alþingis ráð fyrir því að þingið ljúki störfum á morgun og í kjölfarið hefjist kosningabarátta þingmanna. Þingkosningar verða 28. október næstkomandi.