Fimm fyrirtæki fengu styrki úr frumkvöðlasjóði Íslandsbanka samkvæmt tilkynningu frá bankanum. Alls bárust 20 umsóknir en áhersla er lögð á endurnýjanlega orku, sjálfbæran sjávarútveg og verndun hafsvæða í úthlutunum úr sjóðnum. Hver styrkþegi fékk 2 milljónir í þetta skiptið. Þeir sem hlutu styrk voru:

  • Alvarr: Hannar búnað til borana í hart berg með öðrum hætti en þekkst hefur og er ávinningurinn tíma- og orkusparnaður. Alvarr gagnast bæði litlum jarðborum t.d. við „varmadæluboranir" sem og stærri tækjum við olíu- og háhitaboranir.
  • Andblær: Byltingarkennt nýtt loftræstikerfi sem hefur möguleika á að lækkar hitunarkostnað húsa um allt að 30%. Andblær tryggir einnig heilnæm og góð inniloftsgæði en kerfið er aðeins 4-6 cm á þykkt.
  • Ankra: Þróar fæðubótarefni og snyrtivörur sem vinna saman að betri útkomu og vinna á öldrunareinkennum húðar, innan og utan frá. Ankra framleiðir hágæða vörur unnar úr íslensku fiskikollageni, framleiddar á Íslandi. Ankra ætlar að skapar sérhæfð hálaunastörf í vöruþróun og markaðssetningu sem eykur samkeppnishæfni og fjölbreytni íslensks sjávarútvegs.
  • Eco Mals: Framleiðir fallega hannaðan lampa, út frá aðalsögupersónunni úr m.a. EcoMals sögubókinni. Lamparnir sýna raforkunotkunina á heimilinu með því að breyta litum og tilgangur verkefnisins er að kenna börnum og foreldrum þeirra að spara raforku á sýnilegan hátt.
  • Matarskemman: Þróar búnað og tækni til að frostþurrka matvæli með jarðvarma sem orkugjafa.  Búnaðurinn einfaldari og kostnaðarminni í framleiðslu en samsvarandi búnaður sem notaður er í dag. Ávinningurinn er ódýrari búnaður og minni rekstrarkostnaður við frostþurrkunina sjálfa en afurðin er meðfærileg matvara fyrir útivistar- og fjallgöngufólk.