*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 25. maí 2021 16:55

Fimm Kauphallarfélög í methæðum

Úrvalsvísitalan náði sínu hæsta gengi frá upphafi í dag en fjórtán af átján félögum Kauphallarinnar hækkuðu í viðskiptum dagsins.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um 1,3% í 5,4 milljarða króna veltu á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í dag og stendur nú í 3.080 stigum og hefur aldrei verið hærri. Vísitalan hefur hækkað um nærri 95% frá því í mars á síðasta ári. Gengi Arion banka, Iceland Seafood, Festi, Haga og Brims náðu sínum hæstu hæðum í dag.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa erlendir verðbréfasjóðir verið áberandi í fjárfestingum í skráðum íslenskum félögum undanfarna daga en íslenski hlutabréfamarkaðurinn verður tekinn inn í vísitölu MSCI á föstudaginn næsta. Innkoma erlendu sjóðanna hefur einnig stutt við gengi íslensku krónunnar sem styrktist um rúmlega tvö prósent gagnvart helstu gjaldmiðlum í dag.   

Mesta veltan var með hlutabréf Marel sem lækkuðu um 0,4% í 1,6 milljarða króna viðskiptum. Arion fylgdi þar á eftir í milljarðs veltu en gengi bankans hækkaði um 3,8%. Greint var frá því í dag að tuttugu manns hafi verið sagt upp hjá Arion. Fasteignafélagið Reginn hækkaði um tæp fimm prósent, mest allra félaga. Eik hækkaði einnig um 2,5% og Reitir um 1,7%. 

Sjá einnig: HSBC mælir með íslenskum hlutabréfum

Smásölufélögin Festi og Hagar hafa hækkað töluvert að undanförnu og náðu gengi þeirra sem fyrr segir sínum hæstu hæðum í dag. Festi hækkaði um 1,5% í dag og hefur nú hækkað um tæp 20% frá því um miðjan mars. Gengi Haga hækkaði einnig í dag og er nú búið að hækka um 8,6% á síðustu þremur vikum. 

Stikkorð: Úrvalsvísitalan OMXI10