Aðfararnótt mánudags voru undirritaðir kjarasamningar fimm stéttarfélaga við hið opinbera. Þetta kemur fram í frétt á vef ríkissáttasemjara.

Félögin fimm sem um ræðir eru Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Fræðagarður, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Stéttarfélag lögfræðinga. Innihald samninganna liggur ekki fyrir en þeir gilda til loka mars 2023.

Ekkert félaganna fimm hafði vísað kjaraviðræðum sínum til ríkissáttasemjara. Svo háttar hins vegar til í 27 öðrum málum en í langstærstum hluta þeirra er viðsemjandi íslenska ríkið eða sveitarfélög. Fundað hefur verið nær daglega í húsakynnum sáttasemjara það sem af er mánuði og virðist ekki sem lausn sé í sjónmáli í mörgum málanna.