Fjarskipti hf., sem rekur Vodafone hér á landi, hefur endursamið við Landsbankann hf. um langtímafjármögnun að fjárhæð 5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar segir að fjármögnunin feli annars vegar í sér lán að fjárhæð 4.500 milljónir króna, sem meðal annars muni nýtt til uppgreiðslu eldri lána félagsins, og hins vegar lánalínu að fjárhæð 500 milljónir króna. Segir að bæði lán byggi sem fyrr á vaxtakjörum með grunni í REIBOR vöxtum, en nú með marktækt hagstæðara álagi sem endurspegli efnahagslega styrk félagsins. Viðskiptakjör eru að öðru leyti trúnaðarmál.

Lánasamningurinn er til 7 ára, með lokagjalddaga árið 2022, en endursemja má um álag eftir þrjú ár. Lánalínan gildir frá undirritun í dag, 16. júní 2015, til sama dags árið 2020.