*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 27. október 2014 13:52

Fimm milljarða ferja hönnuð fyrir Landeyjahöfn

Vonast er til að nýr Herjólfur komi til landsins eftir tvö ár en skipið mun taka um 400 farþega og 60 bíla.

Trausti Hafliðason
Hörður Kristjánsson

Hönnun á nýjum Herjólfi hófst í ágúst í sumar og er gert ráð fyrir að henni ljúki í febrúar, eða eftir rúma þrjá mánuði. Hönnunin var boðin út og fékk norska fyrirtækið Polarkonsult í Harstad í Norður- Noregi verkið. Ef allt gengur að óskum mun nýr Herjólfur koma til landsins eftir tvö ár. Áætlaður kostnaður við smíði og hönnun nýju ferjunnar er á bilinu 4 til 5 milljarðar, líklega nær 5. Þar af er kostnaðurinn við hönnunina um 750 til 1.000 milljónir. Kostnaðurinn við smíðina sjálfa er að ákveðnu leyti óljós því hún verður boðin út.

Gert er ráð fyrir að nýja skipið verði minna en núverandi skip eða 65 metra langt og 15 metra breitt. Til samanburðar er Herjólfur, sem smíðaður var árið 1992, 70,5 metra langur og 16 metra breiður.

Nýja ferjan er sérstaklega hönnuð til siglinga í Landeyjahöfn. Stóri munurinn á gamla og nýja Herjólfi verður djúpristan. Gamli Herjólfur ristir 4 til 4,5 metra en nýja skipið mun rista 2,8 metra. Þá mun nýja skipið geta siglt í 3,5 metra ölduhæð og verður hannað þannig að það taki minni vind á sig en núverandi skip.

Miðað við þær öldumælingar sem liggja fyrir þýðir þetta að í 355 daga á ári mun skipið geta siglt til Landeyjahafnar. Með öðrum orðum mun það þurfa að sigla til Þorlákshafnar í 10 daga á ári. Þá er reiknað með að í 30 daga á ári verði einhver truflun á siglingum til hafnarinnar innan hvers dags.

Andrés Þ. Sigurðsson, hafnsögumaður í Vestmanneyjum, situr í stýrihóp um byggingu nýs Herjólfs.„Þetta gerir það að verkum að við getum farið að nota höfnina allt árið,“ segir Andrés. „Eins og staðan er núna er kannski ekki hægt að sigla til Landeyjahafnar í fjóra til fimm mánuði á ári. Þetta verður því mikil breyting.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.