Í september voru heildarviðskipti með skuldabréf í kauphöll Nasdaq á Íslandi 111 milljarðar króna eða um fimm milljarðar á dag. Þetta er fimmtungs lækkun frá fyrri mánuði og 16% lækkun frá fyrra ári. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 73 milljörðum og viðskipti með bankabréf 23 milljörðum. Frá þess er greint í viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland.

Sjá einnig: Hlutabréfavelta eykst um fjórðung

Á skuldabréfamarkaði var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina eða 20,2% og Arion banki með 19,1%. Þar á eftir kom Kvika banki með 17,3% hlutdeild. Ávöxtunarkrafa fimm ára óverðtryggðu skuldabréfabréfavísitölunnar (OMXI5YNI) er nú 2,47% og hækkaði hún um fimm punkta í mánuðinum. Ávöxtunarkrafa eins árs óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI1YNI) er 1,04% og hækkaði um tvo punkta í mánuðinum.

Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 0,2% í september og stendur nú í 1.712 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hækkaði um 0,15% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) um 0,23%.