Samfylkingin kynnti í dag breytingartillögur sínar við fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar. Flokkurinn setur bætt kjör lágtekju- og meðaltekjuhópa í forgang sem og baráttuna gegn verðbólgunni.

„Fyrirhuguð 0,8% lækkun á skatt í meðaltekjuþrepi kostar 5 milljarða og nýtist þeim hæstlaunuðu best,“ segir í tilkynningu. „Við viljum verja sama fé til að hækka mörk millitekjuþrepsins úr 250.000 í 350.000. Sú aðgerð, sem er í samræmi við tillögur ASÍ, kostar jafn mikið en skilar öllum á launum milli 250.000 og 600.000 meiri ávinningi og þeim mun meiri sem tekjurnar eru lægri. Einungis þau 25% sem hafa mestu tekjurnar munu tapa á þessari breytingu.“

“Við leggjum líka til að fallið verði frá öllum gjaldskrárhækkunum, í samræmi við frumkvæði fulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjavík og í sveitarstjórnum um allt land. Launþegahreyfingarnar hafa hvatt til nýrrar hugsunar í þessu efni og við viljum svara því kalli. Þessi aðgerð mun halda aftur af verðbólgu og greiða fyrir gerð kjarasamninga.“

Samfylkingin leggur til að ráðist verði í aðgerðir sem nýtast tekjulágum heimilum.


„Við leggjum til hækkun útgjalda til húsaleigubóta um milljarð eða um 23%,“ segir í tilkynningu. „Þessi hækkun mun nýtast tekjulágum hópum vel og eykur á jafnræði á milli þeirra sem eiga og leigja og auðveldar uppbyggingu leigumarkaðar  Við leggjum til að 4 milljörðum verði varið í að styðja við hópa í lægsta tekjuþrepi, svo sem með breytingum í barnabótum, vaxtabótum, bótum almannatrygginga eða með öðrum sértækum aðgerðum.“

Í velferðarmálum og atvinnumálum leggur Samfylkingin meðal annars til að 5 milljarðar fari í heilbrigðiskerfið en í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir niðurskurði þar. Enn fremur leggur flokkurinn til að fallið verði frá hækkun skráningargjalda Háskóla Íslands og að veitt verði rúmlega 500 milljónum til framhaldsskólanna.

Samfylkingin vill að Ríkisútvarpið fái allt útvarpsgjaldið til rekstrar stofnunarinnar og að haldið verið áfram með áform um lengingu fæðingarorlofs í eitt ár í áföngum.

Samfylkingin telur að þau auknu útgjöld sem hún leggur til muni kosta ríkissjóð rúmlega 15 milljarða króna. Á móti því er lögð til tekjuöflun upp á tæpa 15 milljarða.

Helstu tekjuliðir tillagna Samfylkingarinnar:

-Um 3,5 milljarða vegna útboðs á leiguheimildum til makrílveiða.
-Tekjur vegna hækkunar sérstaks veiðigjalds um 2,1 milljarð, til samræmis við tillögu flokksins frá í sumar. "Glænýjar afkomutölur sjávarútvegsins frá Hagstofunni sýna skýrt að ekkert er því til fyrirstöðu að hækka það gjald. Tekjurnar eru einungis þriðjungur af því sem þær ættu að vera ef ríkisstjórnin hefði stutt tillögur okkar í sumar, því þegar hefur verið lagt á afsláttargjald hinnar nýju ríkisstjórnar út yfirstandandi fiskveiðiár," segir í tilkynningu.
-Virðisaukaskattur á gistinætur hækki úr 7 í 14%.
-Samfylkingin gerir ráð fyrir að leggja á 6 milljörðum meira í bankaskatt en ríkisstjórnin hyggst gera. "Ef bankaskattur er jafn örugg tekjulind og stjórnvöld leggja nú upp með eru engin rök til þess að nota hann ekki til annarra verkefna en skuldaniðurfellinga. Sjálfsagt er að nota hann til atvinnuþróunarverkefna sem eru tímabundin í eðli sínu líkt og skatttekjur af þrotabúum föllnu bankanna. Gengið er út frá því að frítekjumark verji minni fjármálafyrirtæki," segir í tilkynningu.
-Við gerum ráð fyrir 3 milljarða heimtum úr sérstöku átaki til að herða skatteftirlit.