Gera má ráð fyrir að íslenskir auglýsendur hafi greitt Google, Facebook og öðrum erlendum miðlum 5,2 milljarða króna fyrir auglýsingabirtingar árið 2018 samkvæmt varfærnislegu mati Hagstofunnar.

Þar ræðir að mestu um vefmiðla, einkum félagsmiðla og leitarvélar. Það eru um 38% íslensks auglýsingamarkaðar. Aftur á móti voru auglýsingatekjur innlendra miðla árið 2018 sambærilegar við það sem gerðist árið 2004, áður en fjölmiðlabóla fyrirhrunsáranna náði fullum vexti.

Í greiningu Hagstofunnar á íslenskum auglýsingamarkaði árið 2018 segir að auglýsingagreiðslur til íslenskra miðla hafi þá numið 13,4 milljörðum króna eða 2% lægri upphæð en árið áður á föstu verðlagi.