Ríkisstjórnin hefur veitt fimm milljóna króna styrk til Fimleikasambands Íslands í viðurkenningarskyni fyrir glæsilegan árangur kvenna- og stúlknalandsliða Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum sem fram fór um helgina. Bæði liðin unnu þar til gulllverðlauna og varð kvennaliðið með því það fyrsta í sögunni til að verja Evrópumeistaratitilinn.

Haft er eftir Jóhönnu Sigurðardóttur í tilkynningu að árangurinn beri gróskunni í fimleikastarfi hér á landi fagurt vitni.

Auk góðs gengis stúlka- og kvennalandsliðanna er vert að geta þess að í blönduðum flokki lentu bæði unglinga- og fullorðinslið Íslands í fjórða sæti í úrslitum Evrópumótsins. Á sama tíma fór fram Norður-Evrópumeistaramót í áhaldafimleikum í Glasgow og unnu þau Ólafur Gunnarsson og Tinna Óðinsdóttir þar til silfurverðlauna í úrslitum á einstökum áhöldum, Ólafur fyrir æfingar á bogahesti og Tinna fyrir æfingar á jafnvægisslá. Þá hafnaði íslenska kvennalandsliðið í fjórða sæti í sveitakeppninni.

Árangur íslensku landsliðanna því góður á öllum vígstöðum nú um helgina.