Vegna aukinna umsvifa erlendis og hér heima hefur fyrirtækið BIOEFFECT sem er dótturfyrirtæki ORF líftækni bætt við sig fimm nýjum starfsmönnum við sölu- og markaðssvið fyrirtækisins.

Auðbjörg Óskarsdóttir tók við starfi alþjóðlegs viðskiptastjóra og heldur utan um ákveðna erlenda markaði. Verkefni hennar lúta að því að efla og styrkja sölu á BIOEFFECT erlendis í nánu samstarfi við starfandi dreifiaðila fyrirtækisins. Auðbjörg starfaði áður sem svæðisstjóri hjá Bestseller og sá um rekstur, starfsmannamál og innkaup fyrir tískuvöruverslanir fyrirtækisins hér á landi. Auðbjörg er með BA í sálfræði frá Háskóla Íslands.

Hildur Friðriksdóttir tók til starfa sem verkefnastjóri í textagerð og prófarkarlestri. Hún sér um mótun á textastefnu BIOEFFECT auk þess sem hún hefur umsjón með textagerð fyrir BIOEFFECT húðvörur á hinum ýmsu miðlum sem og fyrir umbúðir, bæklinga, auglýsingar og fleira. Hildur starfaði áður sem blaðakona á tímaritinu Vikunni þar sem hún skrifaði fjölbreyttar greinar og viðtöl. Hildur er með BA-gráðu í ensku og viðbótardiplóma í kennslufræði frá Háskóla Íslands auk MA í blaðamennsku og fjölmiðlafræði frá University of Sussex.

Margrét Guðmundsdóttir hóf störf sem hönnuður, en meðal helstu verkefna hennar eru hönnun og umbrot á umbúðum og markaðsefni fyrir BIOEFFECT ásamt öðrum hönnunartengdum verkefnum. Margrét útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og að námi loknu starfaði hún í útgáfudeild Birtíngs við umbrot á tímaritum útgáfufélagsins.

Ragnheiður Sylvía Kjartansdóttir tók til starfa sem sölu- og þjónustufulltrúi. Hún heldur utan um erlendar pantanir og vöruflæðisstjórnun auk ýmissa annarra verkefna á vissum erlendum mörkuðum. Ragnheiður Sylvía starfaði áður hjá Íslandsstofu sem verkefnstjóri á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina sem aðaltengiliður við Bretland og Norðurlöndin. Ragnheiður Sylvía er með MS gráðu í Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands og BA gráðu í HHS, Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, frá Háskólanum á Bifröst.

Yara Polana var ráðin til starfa sem vefhönnuður. Hún hefur yfirumsjón með hönnun og þróun vefsíðna fyrirtækisins og annarra tengdra verkefna. Yara hefur ríflega tíu ára reynslu í framendaforritun og vöruhönnun. Hún hefur starfað á Íslandi í fimm ár, hjá fyrirtækjum á borð við Netgíró, Aktiva og Bland.