Hugbúnaðarfyrirtækið Godo, sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, hefur ráðið fimm nýja starfsmenn til að bregðast við aukinni verkefnastöðu hérlendis sem og erlendis, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Nýju starfsmennirnir, sem allir eru konur, eru eftirfarandi:

  • Soffía Pálsdóttir, sem starfaði áður sem sölu- og markaðsstjóri hjá Radisson Blu og Radisson Blu 1919 hótel síðustu 16 árin.
  • Anna Sigurðardóttir, sem var verkefnastjóri hjá Kvan ferðaskrifstofu ásamt því að starfa sem hótel- og viðburðarstjóri hjá Íslandshótelum.
  • Þórdís Erla Sveinsdóttir, sem starfaði áður hjá sem sölustjóri MICE hjá Icelandair Hotels.
  • Bryndís Sigríksdóttir, sem starfaði áður hjá Advania.
  • Anna Jankowa, sem starfaði áður hjá Fosshótelum.

Í tilkynningunni segir að fyrirtækið þjónusti flest hótel og gististaði landsins með einum eða öðrum hætti og umsvif þess erlendis hafi aukist síðustu misserin. Hjá Godo starfi í dag 45 manns og þar af 20 manns á Íslandi.

„Við lögðum allt kapp á frekari þróun á síðasta ári og kappkostuðum við að halda í starfsfólk frekar en að leggjast í uppsagnir. Sú ákvörðun hefur reynst okkur vel enda komum við enn sterkari út úr Covid ári en okkur óraði fyrir,“ segir Sverrir Steinn Sverrisson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Godo.

„Þetta eru allt kjarnakonur og með þeim kemur mikil reynsla og þekking inn í fyrirtækið. Mikill vöxtur undanfarin ár og útlit um bjartari tíma í ferðaþjónustu kallar á aukin umsvif í þjónustu við okkar viðskiptavini. Við viljum með þessum ráðningum tryggja að þegar ferðaþjónustan fer á flug aftur verði okkar viðskiptavinir í enn betri höndum hjá okkur,“ bætir hann við.