*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Fólk 7. maí 2021 11:04

Fimm nýir stjórnendur hjá Arnarlaxi

Arnarlax hefur gengið frá ráðningum í fimm stjórnendastöður, þar á meðal framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og sölusviðs.

Ritstjórn
Efri hluti myndarinnar: Johnny Indergård og Kjersti Haugen. Fyrir neðan: Hjörtur Methúsalemsson og Rúnar Ingi Pétursson. Jón Garðar Jörundsson er á hægri hönd myndarinnar.
Aðsend mynd

Arnarlax, stærsta fiskeldisfyrirtækið á Íslandi, hefur lokið við ráðningar í fimm lykilstöður innan félagsins. Allir fimm einstaklingarnir hafa þegar tekið til starfa, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Jón Garðar Jörundsson (39) er nýr framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar (e. Chief Business Development Officer). Hann gekk fyrst til liðs við fyrirtækið í október í fyrra eftir að hafa aðstoðað fyrirtækið í hlutafjárútboðsferli skömmu áður. Jón Garðar var m.a. stjórnarmaður hjá Arnarlaxi frá 2014 til 2015, framkvæmdastjóri Hafkalks ehf. frá 2012 til 2020 og ráðgjafi hjá KPMG á árunum 2010-2012.

Kjersti Haugen (54) er nýr framkvæmdastjóri sölusviðs (e. Chief Sales Officer). Hún hefur mikla reynslu af sölu fiskafurða og hefur unnið að flutningum og sölu á alþjóðlegum vettvangi frá árinu 1987. Áður en hún kom til Arnarlax starfaði hún sem rekstrarstjóri (e. Chief Operating Officer) hjá Seaborn.

Johnny Indergård (27) hefur tekið við starfi ferskvatnsstjóra (e. Freshwater Manager). Johnny hefur níu ára reynslu af seiða- og stórseiðaframleiðslu frá MOWI í Noregi.

Hjörtur Methúsalemsson (30) er verkefnastjóri í viðskiptaþróunardeild (e. Project Manager in Business Development). Hjörtur hefur undanfarin tvö ár starfað hjá Matvælastofnun (MAST) en hann vann áður sem líffræðingur (e. Biological Controller) hjá Arnarlaxi og er því að snúa aftur á sín gömlu mið.

Rúnar Ingi Pétursson (27) er nýr framleiðslustjóri (e. Production Manager) í vinnslu Arnarlax. Hann hefur reynslu af sjávarútvegi sem sjómaður og í uppsjávarverksmiðju sem rekstrarstjóri verktaka.

Icelandic Salmon, móðurfélag Arnarlax, tilkynnti í dag að Arnarlax hafi nýverið skrifað undir við kaupsamninga á tveimur eldisstöðvum á Hallkelshólum og í Þorlákshöfn.