*

föstudagur, 22. janúar 2021
Fólk 14. janúar 2021 14:07

Fimm nýir stjórnendur til Sýnar

Sýn hefur ráðið fimm nýja starfsmenn á rekstrar-, fjármála og mannauðssvið.

Ritstjórn
Vodafone er eitt af vörumerkjum Sýnar.
Haraldur Guðjónsson

Fimm nýir stjórnendur hafa verið ráðnir til Sýnar á rekstrar-, fjármála og mannauðssvið. Fimmmenningarnir koma frá Icelandair, Arion banka, Bláa lóninu og Borgun.

Hákon Davíð Halldórsson – forstöðumaður á rekstrarsviði
Hákon starfaði áður hjá Icelandair við viðskiptastýringu en þar áður í 5 ár hjá Símanum þar sem hann vann að viðskiptatengslum og þjónustuþróun.

Björgvin Gauti Bæringsson – deildarstjóri á fjármálasviði
Björgvin kemur til Sýnar frá Bláa Lóninu þar sem hann starfaði sem forstöðumaður hagdeildar síðastliðin 3 ár. Áður var Björgvin starfandi í Kaupmannahöfn hjá Demant.

Björgvin mun bera ábyrgð á stuðningi fjármálasviðs við viðskiptaeiningar félagsins út frá mánaðarlegum greiningum á frammistöðu og áætlunargerð hverrar einingar.

Erna Björk Sigurgeirsdóttir – deildarstjóri á fjármálasviði
Erna kemur frá Borgun þar sem hún starfaði undanfarið eitt og hálft ár. Áður en hún byrjaði hjá Borgun starfaði hún á ráðgjafasviði KPMG sem verkefnastjóri. Erna mun bera ábyrgð á áætlunar- og greiningavinnu félagsins í heild sinni á fjármálasviði.

Guðlaug Jökulsdóttir – forstöðumaður verkefnastofu
Guðlaug kemur frá Icelandair þar sem hún hafði starfað í rúmlega 7 ár. Guðlaug mun stýra uppbyggingu á faglegri framkvæmd verkefna og forgangsröðun verkefnabeiðna.

Hörður Bjarkason – verkefnastjóri fræðslu
Hörður starfaði sem sérfræðingur í fræðslumálum hjá Arion banka frá 2016. Hörður er viðskiptafræðingur en hefur einnig talsverða reynslu af framkomu þar sem hann hefur starfað sem tónlistarmaður og skemmtikraftur samhliða hefðbundnum störfum.