Nú um áramót munu fimm nýir tvísköttunarsamningar sem fullgiltir voru á þessu ári koma til framkvæmda.

Um er að ræða samninga við Grikkland, Ítalíu, Kóreu, Mexíkó, Rúmeníu og Úkraínu.

Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins í dag.

Þar kemur fram að með tilkomu hinna nýju samninga eru í gildi tvísköttunarsamningar við 36 ríki. Búið er að árita samningsdrög við 4 ríki til viðbótar en frágangi þeirra samninga og undirritun er enn ólokið.

Þá kemur einnig fram að endurskoðaður tvísköttunarsamningur við Bandaríkin sem var fullgiltur þann 15. desember sl. mun einnig koma til framkvæmda þann 1. janúar 2009. Hinn nýi samningur leysir af hólmi eldri samning sem gilt hefur frá ársbyrjun 1976 og var fjallað um efni hans í vefriti ráðuneytisins þann 25. október 2007.

Upplýsingaskiptasamningur við Mön mun öðlast gildi þann 28. Desember 2008 og kemur til framkvæmda strax á þeim degi að því er varðar mál vegna refsiverðra skattalagabrota og um önnur málefni sem falla undir samninginn vegna skattárs sem hefst 1. janúar 2009.

Sama gildir um þrjá aðra samninga sem gerðir voru við Mön en þeir taka til tekna einstaklinga, tekna af rekstri skipa og flugvéla og sá þriðji fjallar um framkvæmd gagnkvæms samkomulags í tengslum við leiðréttingu á hagnaði tengdra fyrirtækja.

Að lokum má geta þess að bókun um breytingu á tvísköttunarsamningi milli Norðurlandanna kemur einnig til framkvæmda frá og með 1. Janúar 2009.