Fimm nýir yfirmenn hafa verið ráðnir í nýjar stöður hjá Veðurstofu Íslands. Nýtt skipurit tók gildi hjá stofnuninni um áramót í kjölfar skipulagsbreytinga og sameiningar við Vatnamælingar Orkustofnunar. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Kristín S. Vogfjörð hefur verið ráðin yfirverkefnisstjóri rannsókna, Sigrún Karlsdóttir yfirverkefnisstjóri náttúruvár, Theodór Freyr Hervarsson sviðsstjóri samtímaeftirlits, Jórunn Harðardóttir sviðsstjóri fars og Óðinn Þórarinsson sviðsstjóri athugana og mælikerfa. Þau þrjú fyrrnefndu voru áður á Veðurstofunni en hin tvö síðarnefndu á Vatnamælingum.

Eftir sameiningu eru starfsmenn Veðurstofunnar rúmlega 120, auk þess sem fjöldi manns starfar við vöktun og eftirlit víða um land. Starfsemin í Reykjavík fer fram á Bústaðavegi 9 og á Grensásvegi 9, auk þess sem starfsstöðvar eru í Keflavík, á Akureyri og á Ísafirði.