Fimm prósenta söluaukning varð á fyrri helmingi þessa árs hjá tískuvörukeðjunni Mosaic Fashions, sem er móðurfyrirtæki tískuvörumerkja á borð við Oasis, Warehouse, Principles, Karen Millen og Coast. Þá hefur EBITDA Mosaic Fashions aukist um 6 prósent. „Þrátt fyrir erfiða tíma í smásölu í Bretlandi um þessar mundir, get ég ekki annað en verið ánægður með árangur okkar,“ segir Derek Lovelock, forstjóri Mosaic Fashions, í frétt á heimasíðu Baugs.

Derek Lovelock segir, að tekist hafi að greiða niður langtímaskuldir og að draga úr kostnaði í rekstrinum. Þá hefur vefverslun aukist mjög eða um 85 prósent og verslunum keðjunnar hefur fjölgað. Einnig hefur gengið sérlega vel í verslunum utan Bretlands.

Verslunarkeðjan starfrækir nú verslanir í 44 löndum og kom upp verslunum á sjö nýjum mörkuðum á tímabilinu, meðal annars í Egyptalandi, Lettlandi og á Gíbraltar. Karen Millen er ennþá þekktasta merkið alþjóðlega, en fast á hæla hennar er Oasis. Warehouse og Principles hafa komið vel út, þó sérstaklega í Evrópu og Rússlandi. Þá hefur Coast gengið vel í Bloomingdales vöruhúsunum og fyrirhugað er að opna fleiri Coast-verslanir í Bloomingdales.

Derek Lovelock segir, að útlitið næstu mánuði, efnahagslega séð, sé ekkert sérstaklega bjart. Fyrirtækið muni því fara varlega í sakirnar það sem eftir lifir þessa árs og á næsta ári í Bretlandi. Hins vegar séu fyrirtækin afar sterk og í góðri stöðu alþjóðlega, þar séu vaxtasprotarnir eins og er, og þar sé útlitið gott.

Fyrr í dag var greint frá því hér á vefnum að tap á rekstri Mosaic Fashion, sem er í eigu Baugs, á fyrri helming ársins jókst mikið á milli ára og nam það 12,9 milljónum punda. Tapið á sama tíma í fyrra var það 4,7 milljónir punda. Tapið eykst þó svo að heildarsalan sé svipuð og á sama tíma fyrra eða á bilinu 410 til 411 milljónir punda.