Verulegur samdráttur hefur orðið í sölu fasteigna sem meðal annars hefur haft í för með sér fækkun fasteignasala.Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru nú aðeins fimm RE/MAX sölur starfræktar en voru 16 þegar best lét fyrir rúmu ári síðan.

Að sögn Guðbergs Guðbergssonar hjá RE/MAX Bæ er ljóst að nýhafið ár verður erfitt fyrir fasteignasala.

„Okkur hefur gengið þokkalega að selja og erum kokhraust. Það hefur orðið mikil fækkun í stéttinni sem gefur ákveðin tækifæri fyrir þá sem eftir eru," sagði Guðbergur.

Fyrir ári voru ríflega 800 manns að starfa við fasteignasölu hér á landi en samkvæmt nýlegum upplýsingum frá Félagi fasteignasala eru ríflega 230 manns eftir í stéttinni. Þegar best lét voru ríflega 200 manns starfandi hjá  RE/MAX.

RE/MAX er alþjóðleg sérleyfiskeðja með höfuðstöðvar í Denver, Colarado. Keðjan er uppbyggð af sjálstæðum fasteignasölum sem reka skrifstofur sínar í samræmi við RE/MAX kerfið skv. sérstöku leyfi. Vöxtur RE/MAX var lengst af mikill og er RE/MAX nú með skrifstofur í yfir 65 löndum.