Í Katar eru mannréttindi kvenna fótum troðin og frelsinu til tjáningar hefur verið sett ríkar skorður, en þrátt fyrir það er ríkisstjórn landsins sú skilvirkasta í heimi, samkvæmt niðurstöðum Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum). Þetta kemur fram í frétt Independent .

Alþjóðaefnahagsráðið mældi skilvirkni 144 ríkisstjórna víðs vegar um heiminn og studdist við gögn úr eigin skýrslu um samkeppnishæfni ríkjanna. Var þar meðal annars tekið tillit til sóunar, byrði regluverks á fyrirtæki og stjórnmálalegs gegnsæis, og trónir olíuríkið Katar á toppi listans.

Í öðru sæti situr Singapúr en Norðurlöndin eiga hins vegar einn fulltrúa á listanum, Finnland, sem situr í þriðja sæti.

Fimm skilvirkustu ríkisstjórnir heims

1. Katar

2. Singapúr

3. Finnland

4. Hong Kong

5. Sameinuðu arabísku furstadæmin