Alls sóttu fimm mans um embætti landlæknis sem auglýst var fyrir skemmstu.

Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins en heilbrigðisráðherra skipar landlækni til fimm ára í senn að fengnu mati nefndar sem metur hæfni umsækjenda en fulltrúar í nefndinni hafa þekkingu á rekstri, starfsmannamálum, stjórnsýslu og heilbrigðisþjónustu.

Í auglýsingu um starfið er krafist sérfræðimenntunar í læknisfræði og víðtækrar reynslu eða menntunar á sviði stjórnunar. Embættið er undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra og er markmið með starfrækslu þess að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að heilbrigði landsmanna. Landlæknir ber ábyrgð á því að embættið starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Þeir sem sækjast eftir embætti landlæknis eru:

  • Finnbogi O. Karlsson, læknir. Hann rekur lækningastofu í efnaskipta- og innkirtlalækningum í Arkansas í Bandaríkjunum.
  • Geir Gunnlaugsson, læknir. Hann er prófessor við Kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík.
  • Kristján Oddsson, læknir. Hann er aðstoðarlandlæknir.
  • María Heimisdóttir, læknir.  Hún er yfirlæknir á hag- og upplýsingasviði Landspítala.
  • Ragnar Jónsson, læknir.  Hann er sjálfstætt starfandi bæklunarskurðlæknir á eigin læknastofu.

Sérstök matsnefnd fær nú umsóknirnar til umfjöllunar. Hún skilar heilbrigðisráðherra áliti sínu á umsækjendum og þá fyrst getur ráðherra tekið ákvörðun um hver verður næsti landlæknir. Skipað er í stöðu landlæknis til fimm ára frá 1. janúar 2010.