Fimm sóttu um stöðu dómara við Héraðsdóm Vestfjarða. Staðan var auglýst í byrjun júní. Haft er eftir Jóhannesi Tómassyni, upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytisins, á fréttavef Bæjarins besta , að umsóknir verði sendar dómnefnd sem fjalli um hæfni umsækjenda. Embættið verður veitt 1. september næstkomandi.

Kristinn Halldórsson hefur verið dómari við Héraðsdóm Vestfjarða síðastliðin sex ár.

Umsækjendur um dómarastöðuna eru: Arnaldur Hjartarson, aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, Hrannar Már S. Hafberg, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari við embætti ríkissaksóknar og lögmennirnir Sigurður Jónsson og Unnsteinn Örvar Elvarsson.