Eignarhald í skráðum íslenskum félögum í Kauphöll Íslands er þröngt og mikill meirihluti hlutafjár er í eigu fárra aðila. Eignarhaldið er jafnvel enn þrengra en hluthafalistarnir bera með sér þegar tekið hefur verið tillit til eigin bréfa félaganna, sem samkvæmt lögum "detta dauð niður" á hluthafafundum.

Að meðaltali eiga 10 stærstu hluthafarnir í þeim 26 félögum, sem athugun Viðskiptablaðsins náði til, nær 75% hlutafjár og fimm stærstu hluthafarnir eiga liðlega 61%. Þetta er mjög þröngt eignarhald í samanburði við Bandaríkin til að mynda og við stöndum því nær löndum Evrópu þar sem eignarhaldið er þrengra. Þröngt eignarhald getur dregið mjög úr seljanleika bréfanna og hindrað eðlilega verðmyndun þeirra.

Yfirtökunefnd er núna að skoða eignarhald FL Goup og þá hvort að yfirtökuskylda stærstu eigenda félagsins hafi myndast.
Þetta er fyrsta málið sem kemur inn á borð nefndarinnar, sem tók til starfa 1. júlí síðastliðinn. Í samtali við Árnínu S. Kristjánsdóttur ritara nefndarinnar kom fram að vænst er að niðurstaða í málinu liggi fyrir í lok ágúst. "Sumir nefndarmenn og aðilar málsins eru enn í sumarfríum og hefur starf nefndarinnar verið slitrótt af þeim sökum," sagði Árnína.

Það er ekki að ástæðulausu að nefndin skoðar FL Group en töluverðar breytingar hafa verið að eignarhaldi félagsins að undanförnu. Málið snýr að því hvort að stærsti hluthafinn, Hannes Smárason stjórnarformaður félagsins, sé yfirtökuskyldur, en í dag á eignarhaldsfélag hans 35,5% hlut í félaginu. Yfirtökuskyldan, sem miðast við 40%, nær ekki einungis yfir það hvort einn aðili eigi meira en 40% heldur einnig aðilar honum tengdir. Lögin kveða þó um að ekki sé nægilegt að viðskiptatengsl séu á milli manna til að yfirtökuskylda hafi skapast heldur þarf einnig að vera fyrir hendi samkomulag og þá hugsanlega óformlegt um að tengdir ráðandi hluthafar hafi snúið bökum saman til að ná yfirráðum í félaginu.

Árnína sagði hlutverk nefndarinnar, sem stofnuð er að frumkvæði Kauphallarinnar og fleiri aðila á fjármálamarkaði, vera meðal annars að gefa álit sitt á því hvort aðilar séu yfirtökuskyldir eða ekki. "Nefndin hefur ekki lagastoð og hefur þannig ekki úrræði til að knýja fram breytingar ef nefndin telur að yfirtökuskylda hafi myndast. Ef engar breytingar verða á eignarhaldi er líklegt að FME taki málið til athugunar og kanni hvort yfirtökuskylda hafi myndast."