Iceland Express býður tæplega fimm þúsund miða á svokölluðum starfsmannakjörum, eða á um 5.000 krónur báðar leiðir auk flugvallarskatta. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þetta sé gert af því tilefni að nýjar Airbus flugvélar séu komnar í flota félagsins og að fjárhagslegri endurskipulagningu sé að ljúka. Þá hafi hafi yfirstjórn félagsins stokkað upp í rekstri þess og áætlunum.

Þá segir í tilkynningunni að eigandi hafi lagt Iceland Express til 1,3 milljarða króna í reiðufé á síðustu mánuðum til að mæta taprekstri þessa árs. Félagið beri engar vaxtaberandi skuldir hjá bönkum og lánastofnunum. Búið er að ráða Skarphéðinn Berg Steinarsson forstjóra fyrirtækisins til frambúðar.

Haft er eftir Pálma Haraldssyni, eiganda Iceland Express, að yfirstjórn félagsins hafi ráðist í rækilega jólahreingerningu á undanförnum vikum. Með henni og fjárhagslegri styrkingu sé fólkgin skýr yfirlýsing um að félagið ætli sér stóra hluti á komandi árum og áframhaldandi forystuhlutverk í lækkun fargjalda til og frá landinu.