Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur borist fimm skuldbindandi tilboð með fyrirvörum í nýtt hlutafé Steypustöðvarinnar ehf. að því er segir í fréttatilkynningu sem bankinn sendi frá sér. "Tilboðin voru opnuð í gær, miðvikudaginn 2. desember kl. 16.00 í viðurvist Sigurðar Páls Haukssonar, löggilts endurskoðanda, sem var tilnefndur sem óháður matsaðili og samþykktur af öllum bjóðendum," segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

Þeim þremur aðilum sem áttu hæstu tilboðin, verður gefinn kostur á áframhaldandi þátttöku í söluferlinu og veittur aðgangur að nánari upplýsingum um starfsemi og fjárhag fyrirtækisins. Endanlegum tilboðum án fyrirvara ber að skila í síðasta lagi miðvikudaginn 16. desember 2009, fyrir kl. 16:00.

Íslandsbanki eignaðist hlut sinn í Steypustöðina eftir að rekstur fyrirtækisins Mest var endurskipulagður vegna rekstrarerfiðleika fyrirtækisins. Steypustöðin var rekin sjálfstætt að endurskipulagningu lokinni.