Samtök fjármálafyrirtækja beina tilmælum til aðildarfélaga sinna um innheimtu fastrar krónutölu af íbúðalánum í erlendri mynt.  Í kjölfarið af úrskurði hæstaréttar 16. júní sl. um bílasamninga til einstaklinga sem kváðu á um að gengistrygging slíkra samninga væri ólögmæt hefur ríkt óvissa um hvort íbúðalán einstaklinga í erlendri mynt falli undir dóminn. Óvissunni verður ekki eytt nema fyrir dómstólum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem SFF hafa sent frá sér. Í fréttatilkynningunni kemur fram að á meðan beðið er dóms telja Samtök fjármálafyrirtækja nauðsynlegt að grípa til aðgerða til bráðabirgða í ljósi þeirra ábendinga sem settar hafa verið fram á opinberum vettvangi, m.a. Talsmanni neytenda. SFF hafa í ljósi þess ákveðið að beina því til aðildarfélaga sinna að einstaklingum bjóðist að greiða fasta greiðslu af íbúðalánum sínum í erlendri mynt sem miðast við upphaflegan höfuðstól lánsins. Lagt er til, að þar til dómstólar hafa eytt þeirri óvissu sem ríkir um fyrrgreind lán, verði greiddar mánaðarlega 5.000 krónur af hverri milljón upphaflegs höfuðstóls. Mánaðarleg afborgun af láni með upphaflegan höfuðstól að fjárhæð kr. 13.000.000 yrði því 65.000 krónur.