Nefndin sem vinnur að athugun á flugvallarkostum fyrir innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað valkostum úr fimmtán í fimm. Kostirnir eru við Bessastaðanes, Löngusker, Hvassahraun, Hólmsheiði og svo nýjar útfærslur á núverandi flugvelli í Vatnsmýri.

Ragna Árnadóttir, formaður nefndarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið að hún vonist til þess að frumkönnun nefndarinnar ljúki fyrir lok októbermánaðar. Þá yrði væntanlega hægt að stytta listann yfir valkosti enn frekar og hefja fullkönnun.