Átta sóttu um laust embætti dómara við Hæstarétt Íslands. Dómarastaða losnar um næstu mánaðarmót þegar Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson láta af embætti. Sagt er frá á vef Stjórnarráðsins .

Fimm landsréttardómarar sækja um embættið. Það eru þeir Aðalsteinn E. Jónasson, Davíð Þór Björgvinsson, Ingveldur Einarsdóttir, Oddný Mjöll Arnardóttir og Sigurður Tómas Magnússon. Davíð Þór og Ingveldur voru bæði meðal umsækjenda þegar Karl Axelsson var skipaður hæstaréttardómari árið 2015. Ingveldur var um skeið settur dómari við Hæstarétt á árinu 2014.

Tveir prófessorar við Háskóla Íslands sækja einnig um embættið. Það eru þær Aðalheiður Jóhannsdóttir og Ása Ólafsdóttir. Báðar tóku þær sæti í stökum málum í Hæstarétti þegar vinna þurfti niður einkamálahalann í kjölfar stofnunar millidómstigsins. Aðalheiður tók nýverið við stöðu forseta lagadeildar HÍ eftir að fyrri forseti deildarinnar, Eiríkur Jónsson, var skipaður dómari við Landsrétt.

Síðasti umsækjandinn er Guðni Á. Haraldsson lögmaður.

Umsóknarfrestur rann út í gær. Skipað verður í embættið um leið og dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefur lokið störfum sínum.