Hagnaður Rekstrarvara ehf. og danska dótturfélagsins RV Unique ApS nam 399,9 milljónum króna á síðasta ári, sem er hátt í fimmföldun frá árinu 2019 þegar samstæðan hagnaðist um 82 milljónir. Framlag starfseminnar á Íslandi til heildarafkomu síðasta árs nam 242,5 milljónum.

Velta samstæðunnar nam 4,3 milljörðum króna og jókst um vel á annan milljarð á milli ára, eða um 70%, en þar af nam velta á Íslandi 2,7 milljörðum. Rekstrargjöld jukust um 89% og námu 2,7 milljörðum króna og nam rekstrarhagnaður því ríflega hálfum milljarði, sem er fjórföldun frá fyrra ári.

Laun og launatengd gjöld námu 745 milljónum króna og jukust um 10,4% milli ára, en starfsmenn voru 63 að meðaltali á árinu, einum fleiri en árið 2019.

Eignir félagsins námu 2,3 milljörðum í lok árs, sem er ríflega helmingsaukning frá árslokum 2019. Eigið fé nam 1,2 milljörðum, samanborið við 735 milljónir á sama tíma ári fyrr, og skuldir 1,1 milljarði, samanborið við 759 milljónir árið áður. Eiginfjárhlutfall félagsins jókst lítillega fyrir vikið, úr 49,2% í 51,4%.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningnum segir að heimsfaraldurinn hafi haft mikil og margvísleg áhrif á rekstur og efnahag samstæðunnar á síðasta ári, veigamest var þó aukin tekjumyndun. Hluthafar Rekstrarvara eru tveir, Kristján Einarsson með 60% hlut og Sigríður Bára Hermannsdóttir með 40% hlut.