Þó að Tímatal hafi verið til í rúmlega fjögur ár hafa seinustu 12 mánuðir verið alveg einstakt ævintýri í okkar lífi,” segir Jón Hilmar Karlsson, framkvæmdastjóri og annar af tveimur eigendum tímabókunarkerfisins Tímatal, en síðan Jón Hilmar kom inn í hugbúnaðarfyrirtækið hefur reksturinn rúmlega fimmfaldast. Núna er Tímatal í daglegri notkun hjá rúmlega 100 íslenskum þjónustufyrirtækjum.

„Tímatal er tímabókunar- og umsjónarkerfi fyrir þjónustufyrirtæki sem taka við tímapöntunum. Þetta byrjaði allt saman sem lítið hliðarverkefni hjá mér þegar ég var í menntaskóla, en í dag erum við komnir á þann skemmtilega stað að geta sinnt Tímatali að fullu,“ segir Kjartan Þórisson, tæknistjóri og stofnandi fyrirtækisins.

„Kerfið verður í raun lífæð þeirra fyrirtækja sem nota það, enda er allt þeirra skipulag hjá okkur. Þau geta einbeitt sér að sínu á meðan við hjálpum þeim að fylla daginn sinn af bókunum, fækka skrópunum, hámarka tekjur og eyða minni tíma í þá hluti sem tengjast ekki beint þeirra verðmætasköpun, eins og t.d. að svara í símann eða reikna út laun starfsmanna.“

Hefur ekki bitnað á einkunnum

Tímatal er þó ekki það eina sem á huga þeirra félaga, en Kjartan og Jón eru á seinasta ári í rekstrarverkfræðinámi við Háskólann í Reykjavík. „Hlutirnir voru byrjaðir að gerast það hratt að við ákváðum að setja námið í annað sæti fyrir tæpu ári síðan. Þó að foreldrar okkar hafi ekki verið sátt með þá ákvörðun til að byrja með, náðum við að sannfæra þau um annað þegar í ljós kom að ákvörðunin hafði lítil sem engin áhrif á einkunnir okkar,“ segir Kjartan. Þess má geta að bæði Jón Hilmar og Kjartan hafa lent á forsetalista tækni- og verkfræðideildar HR.

Hálf milljón tíma bókuð

„Við höfum vissulega látið lítið fyrir okkur fara hingað til, enda höfum við mest treyst á beina sölumennsku, en þó hafa um fimm hundruð þúsund tímar verið bókaðir í okkar kerfum og rúmlega helmingur landsmanna á aldrinum 16-45 ára hefur á einn eða annan hátt farið í gegnum Tímatal þó að þau viti ekki endilega af því,“ segir Jón.

„Tímatal hefur aldrei tekið inn utanaðkomandi fjármagn þó að tækifærin hafi verið til staðar. Hingað til höfum við verið þolinmóðir í þeim málum, enda jafn mikilvægt fyrir okkur að velja rétta fjárfesta og það er fyrir fjárfesta að velja réttan fjárfestingarkost. Þar að auki hefur félagið alltaf staðið undir sér og því hefur fjármagnsþörfin ekki verið brýn hingað til,“ segir Kjartan sem segir Tímatal eiga mikið inni.

„Það eru spennandi tímar fram undan, enda teljum við að sýnin sé orðin nægilega skýr, varan nógu góð, þekkingin það mikil og tækifærin það stór að það sé kominn tími til þess að hlaupa hraðar, sama hvort það feli í sér að sækja fjármagn eða byggja upp samstarf með stærri aðila. Við erum í markaðsráðandi stöðu á Íslandi og erum nú þegar búnir að kortleggja okkar fyrstu skref erlendis, en það er verkefni sem hefst þegar skólagöngu okkar lýkur. Þangað til er markmiðið að fullkomna þjónustu okkar gagnvart íslenskum markaði og halda áfram að gera líf viðskiptavina okkar betra.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .