Samhliða skýrslu sérfræðihóps á vegum forsætisráðuneytisins um höfuðstólslækkun húsnæðislána, kom út mat ráðgjafafyrirtækisins Analytica á þjóðhagslegum áhrifum aðgerðanna. Í greiningunni kemur fram að aðgerðirnar geti orðið til þess að einkaneysla aukist sem nemur um 0,2-0,4% á ári hverju frá 2014-2018. Er sú aukning viðbót við núverandi spá Hagstofunnar sem gerir ráð fyrir að einkaneysla aukist um 2,5-2,8% árlega næstu fjögur árin. Þá bendir spá Analytica einnig til þess að velta á fasteignamarkaði muni aukast talsvert vegna leiðréttingaraðgerðanna, en samkvæmt spánni gætu bein áhrif aðgerðanna verið um 7-9% aukning í veltu á ári hverju, og leitt af sér 1,5% verðhækkanir á ári hverju, umfram almennar hækkanir, á fasteignum fram til ársins 2018.

Fimmtungur fer í aukna neyslu
Mat Analytica gerir ráð fyrir að af hverri krónu sem felld er niður fari um fimmtungur hennar í neysluútgjöld. Ef miðað er við 80 milljarða beinar afskriftir útlána, sem eiga samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar að falla strax niður um mitt næsta ár er því um 16 milljarða að ræða sem færu beint í neyslu heimilanna. Hinir 70 milljarðarnir, sem safnast gætu inn á húsnæðissparnað heimilanna í gegnum skattfrjálsar innlagnir séreignarsparnaðar í fasteignasparnað dreifast yfir 4 ára tímabil og hefðu því hægari áhrif á neysluna. Ef gert væri ráð fyrir að svipaðra áhrifa á neysluna myndi gæta af séreignarsparnaðinum væri því um að ræða aðra eins upphæð í viðbót, og því alls um  30 milljarða innspýtingu í neyslu heimilanna á tímabili aðgerðanna. Til samanburðar má nefna að einkaneyslan árið 2012 nam um 913 milljörðum króna, eða um 54% af vergri landsframleiðslu, en ef spá Analytica gengur eftir mun hlutfall einkaneyslu í landsframleiðslu haldast svipað og í fyrra út spátímabilið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .