*

föstudagur, 15. nóvember 2019
Innlent 2. desember 2016 15:13

Á fimmta milljarð króna til sjóðanna

Þegar umsýsluþóknanir lífeyrissjóða til fjárfestingarsjóða innan lands og utan eru teknar með í reikninginn hækkar kostnaðarhlutfall þeirra.

Bjarni Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Heildarkostnaður tíu stærstu lífeyrissjóðanna nam í fyrra tæpum 5,8 milljörðum króna, en þar er þó ekki meðtalinn kostnaður vegna þóknana til sjóða, sem sjá um fjárfestingar fyrir viðkomandi sjóði. Þegar þær eru teknar með í reikninginn hækkar kostnaðurinn verulega, eða um 4,2 milljarða að minnsta kosti. Ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar um þennan kostnaðarlið hjá öllum lífeyrissjóðum.

Í nýlegum reglur Fjármálaeftirlitsins um ársreikninga lífeyrissjóða voru lagðar auknar skyldur á herðar lífeyrissjóða hvað varðar framsetningu á upplýsingum um fjárfestingargjöld og aðrar fjárfestingar í ársreikningum. Þannig segir í reglunum í skýringum skuli veita nánari upplýsingar um þennan lið, sundurliða hann og greina frá öllum fjárfestingargjöldum og þóknunum. Jafnframt skal í skýringum greina frá áætlaðri umsýsluþóknun þegar kostnaðarupplýsingar liggja ekki fyrir, t.d. vegna þess að upplýsingar um slíkar þóknanir fást ekki gefnar upp eða kostnaður er innifalinn í gengismun eða vaxtatekjum viðkomandi sjóða.

Þetta þýðir að í fyrsta skipti þurfa lífeyrissjóðirnir að gefa upp hversu mikið þeir greiða í umsýsluþóknanir til þriðju aðila sem sjá um fjárfestingar fyrir þá. Þó virðast ekki allir stærstu lífeyrissjóðirnir hafa gengið eins langt í þessari upplýsingagjöf og aðrir, en þannig er ekki hægt að sjá hversu háar fjárhæðir Stapi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga greiða í slíkar þóknanir.

Breyta kostnaðarhlutfallinu

Þá er misjafnt hvort sjóðirnir sundurliða þóknanir til innlendra sjóða annars vegar og erlendra hins vegar. Það gerir Lífeyrissjóður verslunarmanna og sést þar að þóknanir til innlendra sjóða voru 233,7 milljónir króna, en þóknanir til erlendra sjóða voru um 764 milljónir. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins gefur upp heildartöluna 429 milljónir króna, en Gildi lífeyrissjóður greiddi 271,7 milljónir króna í umsýsluþóknun til innlendra sjóða og 710,7 milljónir til erlendra sjóða. Af þeim sjóðum sem Viðskiptablaðið skoðaði er hæst hlutfall þóknana til innlendra sjóða hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum, en hann greiddi 406 milljónir króna til innlendra sjóða í fyrra, samanborið við 234,3 milljónir til erlendra sjóða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.