Hlutabréf átján af þeim nítján félaga sem skráð eru í kauphöll Nasdaq á Íslandi hækkuðu í virði í viðskiptum dagsins. Þar af hækkuðu fimmtán félög um meira en eitt prósentustig, níu félög um meira en tvö prósentustig og fimm félög um meira en þrjú prósentustig.

Heildarvelta dagsins nam 2,8 milljörðum króna í alls 246 viðskiptum. Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 2,81% og stendur í 2.153 stigum. Vísitalan hefur hækkað um ríflega 4,1% í þessari viku.

Við lokun markaða á þriðjudag í þessari viku stóð vísitalan í 2.046 stigum og hefur hún hækkað um ríflega fimm prósent síðan þá. Fyrir um mánuði fór vísitalan í hæstu hæðir eða 2.205 stig. Síðan lækkaði hún um allt að 7,2% og náði nær þriggja mánaða lægð á þriðjudag.

Bréf Icelandair að taka á loft?

Mest hækkuðu hlutabréf Icelandair eða um 7,78% í 55 viðskiptum og 76 milljóna króna veltu. Bréf félagsins stóðu í 0,97 krónum í lok dags. Hlutabréf Icelandair náðu sögulegu lágmarki eftir lokun markaða á mánudag í þessari viku þegar þau stóðu í 0,87 krónum hvert. Það sem af er viku hafa bréfin hækkað um 12,5%.

Næst mest hækkun var á hlutabréfum Kviku banka um 5,29% í næst mestri veltu sem nam 429 milljónum króna. Við lokun markaða í dag stóðu bréfin í 11,75 krónum og hafa þau hækkað um fimmtung á síðustu þremur mánuðum.

Þriðja mesta hækkunin var á hlutabréfum TM sem hækkuðu um 5,13% í dag og fást nú á 39 krónur. Bréfin hafa hækkað um tæplega 16% á síðustu þremur mánuðum. Bréf bæði Kviku banka og TM hækkuðu talsvert eftir að félögin samþykktu formlega að hefja viðræður um sameiningu.

Forsendur viðræðnanna eru sagðar byggjast á því að TM verði dótturfélag Kviku og að Lykill fjármögnun, núverandi dótturfélag TM, sameinist Kviku. Sagt er raunhæft að mati stjórna félaganna að ná fram eins milljarðs króna kostnaðarsamlegð með sameiningu, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar.