Um það bil fimmtán mál sem snerta hrunið eru enn í rannsókn hjá embætti sérstaks saksóknara. Þetta segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við Morgunblaðið .

Þar segir Ólafur að markmiðið hjá embættinu sé að klára flest málin fyrir áramót. „Ég er bjartsýnn á að það takist, alla vega að við förum langleiðina með það, í það minnsta þannig að mesti kúfurinn verði farinn,“ segir hann.

Öllum málum frá árinu 2009 er lokið hjá embættinu en Ólafur segir að fjórum málum frá árinu 2010 sé ólokið. Þeim ætti hins vegar að ljúka á næstu tveimur vikum.

Embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður um áramótin, en þá munu verkefni embættisins flytjast til nýs embættis héraðssaksóknara. Ólafur Þór er meðal umsækjenda um starf héraðssaksóknara.