Fimmtán í framboði hjá Samfylkingunni í Reykjavík Fimmtán bjóða sig fram í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík 7.- 8. febrúar næstkomandi, sjö konur og átta karlar. Frestur til að skila framboðum rann út í gær. Í tilkynningu segir að frambjóðendur hefji undirbúninginn fyrir flokksvalið í sameiningu kl. 14 í dag með því að þiggja boð Hallveigar, félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, um að snæða með þeim kjötsúpu og ræða stöðu ungs fólks í Reykjavík.

Meðalaldur frambjóðenda reynist vera 42 ár. Þriðjungur er yngri en 35 ára en ungir jafnaðarmenn um land allt hafa markvisst hvatt ungt til að gefa kost á sér til starfa í sveitarstjórnum.

Félagar í aðildarfélögum Samfylkingarinnar kjósa bindandi kosningu um fjögur efstu sætin á lista fyrir borgarstjórnarkosningar í vor og geta raðað frambjóðendum í sæti 5 til 8 án þess að það sé bindandi fyrir valnefnd sem stillir upp á listann. Listi Samfylkingarinnar verður paralisti. Í tveimur efstu sætum verður einn einstaklingur af hvoru kyni og svo í hverjum tveimur sætum þar á eftir og niður listann. Um er að ræða netkosningu sem opin er félagsmönnum 7. til 8. febrúar nk.

Frambjóðendur í flokksvalinu:

  • Anna María Jónsdóttir kennari, gefur kost á sér í 3. til 4. sæti
  • Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi, gefur kost á sér í 2. sæti
  • Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi og læknir, gefur kost á sér í 1. sæti
  • Dóra Magnúsdóttir stjórnsýslufræðingur, gefur kost á sér í 4. sæti
  • Guðni Rúnar Jónasson framkvæmdastjóri, gefur kost á sér í 3. til 4. sæti
  • Heiða Björg Hilmisdóttir deildarstjóri LSH, gefur kost á sér í 3. til 4. sæti
  • Hjálmar Sveinsson varaborgarfulltrúi, gefur kost á sér í 3. sæti
  • Kristín Erna Arnardóttir háskólanemi og kvikmyndagerðarmaður, gefur kost á sér í 3. til 4. sæti
  • Kristín Soffía Jónsdóttir varaborgarfulltrúi, gefur kost á sér í 3. sæti
  • Magnús Már Guðmundsson framhaldsskólakennari, gefur kost á sér í 4. sæti
  • Natan Kolbeinsson, formaður Hallveigar, félags UJ í Reykjavík, gefur kost á sér í 3. til 4. sæti
  • Reynir Sigurbjörnsson rafvirki, gefur kost á sér í 1. til 4. sæti
  • Skúli Helgasson stjórnmálafræðingur, gefur kost á sér í 3. sæti
  • Sverrir Bollason skipulagsverkfræðingurgefur kost á sér í 3. sæti
  • Þorgerður L. Diðriksdóttir kennari, gefur kost á sér í 3. til 4. sæti