Heildarvelta með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu nam 14.893 milljónum króna vikuna 17. til 23. júlí sl. Þetta kemur fram í markaðsfréttum Þjóðskrár Íslands.

Velta á fasteignamarkaði er óvenjuhá þessa dagana, en skýringuna má rekja til verkfalls lögfræðinga hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík, sem þinglýstu engum kaupsamningi í tólf vikur á meðan verkfallinu stóð. Eftir að verkfallinu lauk hafa starfsmenn sýslumanns afgreitt þinglýsingar í gríð og erg.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga í vikunni var 403. Þar af voru 303 samningar um eignir í fjölbýli, 88 samningar um sérbýli og tólf samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Meðalupphæð á hvern samning nam 37 milljónum króna.

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Þjóðskrár Íslands.