*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 28. apríl 2018 14:28

Fimmtán sagt upp hjá Gray Line

Gray Line sakar eigendur Bláa lónsins um að reyna að losna undan samkeppnina um ferðir í Bláa lónið.

Ritstjórn
Uppsagnarfrestur starfsmannanna er frá einum og upp í þrjá mánuði.
Aðsend mynd

Gray Line á Íslandi hefur sagt up um fimmtán starfsmönnum vegna samdráttar í verkefnum, þar sem ákveðið hefur verið að hætta með áætlunarferðir í Bláa Lónið. Um er að ræða um 5% af starfsmannafjöldanum, bílstjóra og starfsfólk í farþegaafgreiðslu. Þetta er í fyrsta skipti í 30 ára sögu félagsins sem bregðast þarf við samdrætti með uppsögnum að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Eigendur Bláa Lónsins sögðu upp samkomulagi við Gray Line um sölu á baðgjaldi í lónið frá 1. apríl síðastliðnum og hafa ekki boðist til að gera nýtt samkomulag. „Algjör forsenda þess að geta boðið áætlunarferðir í Bláa Lónið er að viðskiptavinir geti um leið keypt baðgjald,” segir í tilkynningunni.

Bláa lónið tilkynnti nýlega að fyrirtækið hyggst sjálft hefja áætlunarferðir milli Keflavíkurflugvallar og Bláa lónsins í samstarfi við Hópbíla. Hópbílar eru að fullu í eigu framtakssjóðsins Horn III sem er í rekstri hjá Landsbréfum, dótturfélagi Landsbankans. Sjóðurinn Horn II, sem einnig er í rekstri hjá Landsbréfum, er meðal stærstu hluthafa Bláa lónsins.

Gray Line segir ákvörðun Bláa lónsins þurfi ekki að koma á óvart. „Þessi eigendahópur virðist hafa sammælst um að losa sig við samkeppnina til að skapa rými fyrir eigið fyrirtæki í þessum ferðum. Það er áhyggjuefni að eigendasamþjöppun af þessu tagi með tilheyrandi samkeppnishindrunum skuli vera að raungerast með svo ógagnsæjum hætti. En það er ný samkeppnisáskorun sem þarf þá að takast á við,” segir í tilkynningu frá Gray Line.

„Áætlunarferðir Gray Line í Bláa lónið hafa verið ein af meginstoðum afþreyingarferða fyrirtækisins í 20 ár. Gray Line hefur kynnt Bláa lónið í markaðsstarfi sínu um allan heim og flutt hundruð þúsunda viðskiptavina baðstaðarins þangað. Árum saman byggðist aðsókn í Bláa lónið að mestu leyti á samstarfi við ferðasöluaðila víðsvegar um heiminn, sem hafa verið að selja áætlunarferðir með Gray Line og fleiri hópferðafyrirtækjum,” segir jafnframt í tilkynningunni.

Þá er jafnframt kvartað undan aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart undirboðum frá erlendum hópferðafyrirtækjum. „Þessi fyrirtæki koma með hópferðabíla sína til landsins, sniðganga skatta og gjöld og fara ekki eftir íslenskum kjarasamningum. Kostnaður þeirra er þar af leiðandi mun lægri en hjá íslensku fyrirtækjunum sem standa skil á sköttum og gjöldum samkvæmt íslenskum lögum og reglum. Getuleysi stjórnvalda til að taka á þessum undirboðum og lögbrotum er algjört, sem og í fleiri sambærilegum málum er varða erlenda samkeppni í ferðaþjónustunni.”

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is