Danir voru fjölmennastir í hópi um 59 þúsund manna sem flugu frá Íslandi í júlí en þar af voru erlendir ferðamenn um 45 þúsund. Frá þessu er greint á vef Túrista.

Dönsk stjórnvöld gáfu í sumarbyrjun grænt ljós á ferðalög þegna sinna til Noregs, Þýskalands og Íslands. Auk þess gátu Danir ferðast til Grænlands og Færeyja án þess að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna heim. Valkostirnir voru því ekki margir og samkvæmt nýjum tölum Ferðamálastofu þá kusu óvenju margir Danir að leggja leið sína hingað til lands í júlí. Þá flugu nefnilega nærri tíu þúsund Danir frá Keflavíkurflugvelli eða þriðjungi fleiri en í júlí í fyrra.

Gera má ráð fyrir að fjöldi Dana hafa einnig nýtt sér ferðir Norrænu hingað til lands í síðasta mánuði enda siglir ferjan vikulega frá Jótlandi til Íslands. Næst fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi í júlí voru Þjóðverjar en þeim fækkaði þó um helming frá því í júlí í fyrra.