Allt að 200 rússneskir bankar gætu orðið gjaldþrota á þessu ári, að því er kanadíska blaðið National Post hefur eftir skýrslu Center for Macroeconomic Analysis and Short-Term Forecasting. Þetta þýðir að fimmti hver banki í Rússlandi stendur svo höllum fæti að hætta er á gjaldþroti.

Gert er ráð fyrir efnahagslegum samdrætti í Rússlandi upp á 3,5% í ár og skipta þar mestu máli hrun á olíumörkuðum og refsiaðgerðir Vesturlanda. Gengisfall rúblunnar er að valda rússneskum bönkum vandræðum sem og sú staðreynd að gæði lánasafna þeirra eru ekki nægilega mikil.

Erlendar skuldir rússneska bankakerfisins nema 192 milljörðum Bandaríkjadala og eru um 70% þeirra í bandarískum dollurum. Undanfarið ár hefur rússneska rúblan fallið um 50% gagnvart Bandaríkjadal.